
Á fyrstu vikum ársins hafa margar verið að finna taktinn upp á nýtt. Við erum að finna tækifærin sem nýtt ár býður upp á - og þau eru æði mörg!
Ef þú ert að koma þér af stað í ræktinni eftir stutta eða langa pásu þá er fyrsta skrefið að mæta, fyrsta skiptið er þyngst. Annað skrefið er örlítið skárra en jafnframt svolítið erfitt oft á tíðum en svo er „bara“ að halda áfram að mæta. Setja sér markmið sem eru raunhæf, til dæmis að mæta tvisvar eða þrisvar í viku í ræktina. Eftir lengri pásu er tvisvar í viku frábært og horfðu á þriðja skiptið sem bónus! Þá er komið að því að halda áfram að mæta og búa til rútínuna. Það tekur nokkrar vikur að búa til ræktarrútínu og svo tekur aðrar nokkrar vikur svo úr verði fastar venjur.
Þegar þú hefur náð markmiðunum í nokkrar vikur þá ertu á góðri leið að vera komin með fastan vana. Við fögnum því þegar við náum að mæta en sleppum ef þú nærð ekki þínum markmiðum einhverja vikuna, ekki berja þig niður. Ef við berjum okkur niður fyrir að mæta ekki verður skrefið inn fyrir dyrnar erfiðara. Við höldum áfram og reynum þá aftur í næstu viku.
Á þremur til sex mánuðum er hreyfing orðin að föstum lið dagsins og að vana sem er ekki jafn viðkvæm fyrir afsökunum og áður.
En vertu vakandi að það tekur aðeins örfáar vikur að detta tilbaka þannig að skrefin í ræktina séu aftur orðin þung.
Höldum stefnu, höldum mætingu og berjumst gegn litlu púkunum á öxlunum sem vilja heldur hoppa upp í sófa.
Áfram veginn, áfram þú!
xoxo
Comments