top of page

Lífið er leikur!

Hvenær hlóstu síðast svo dátt að tárin láku?

Því er gjarnan haldið fram að hlátur lengir lífið og ó hvað það er nú gott og hollt að hlægja! Það verður allt pínu bjartara þegar við leyfum okkur að gleyma okkur í núinu og skella bara alveg hressilega upp úr.


Við hættum ekki að leika okkur þegar við eldumst, við eldumst þegar við hættum að leika okkur. Það þarf nefnilega ekki allt að vera alvarlegt og rosalega fagmannlegt – alltaf. Við verðum að geta leyft okkur að fíflast líka, grínast og hlægja – og þá meina ég alvöru hlægja en ekki bara skrifa LOL á lyklaborðið eða senda hlægju-„emoji“-kall.


Lífið er nefnilega býsna skemmtilegt þegar við leyfum okkur að njóta þess. Það er allt í lagi að misstíga sig, brjóta glas, mismæla sig, rugla og bulla. Auðvitað erum við ekki allar sífellt að gera einhverjar vitleysur en það kemur alveg fyrir hjá okkur öllum og er það ekki bara í lagi?


Þegar talað er um að leika sér þá er ekki endilega verið að meina að við eigum allar að fara út í snúsnú (þó það væri nú eiginlega alveg geggjað að hóa í snúsnú æfingu í sumar!) eða í skotbolta.


Hvernig væri samt ef þú myndir nú skella þér í meistaralegan feluleik með makanum, barninu eða vinkonu? Hver hefur ekki hlegið af feluleik barnanna sem fela sig alltaf á sama staðnum og eru alltaf jafn hissa þegar það er fundið? Finndu eitthvað sem þú hefur gaman að eða hefur á einhverjum tímapunkti hugsað að þetta gæti verið skemmtilegt – og skelltu þér í leik!


Já núna bara, skelltu þér í leik og fáðu einhvern með þér!


Vittu til, leikurinn endar (vonandi) í hlátri og barnslegri gleði yfir asnaskapnum sem getur verið svo æði upplífgandi og skemmtilegur.


Njóttu að leika þér og fáðu þér svo bland í poka (eða eitthvað annað góðgæti) á eftir yfir einhverri gamalli grínmynd sem þú veist að kallar fram hlátur.


Leikur lengir lífið!


xoxo

54 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page