Áramótapistillinn
- Kvennastyrksteymið

- 4 days ago
- 2 min read
Nýársheiti eða markmið
Nú þegar árið er að líða undir lok er tilvalið að staldra aðeins við, líta yfir farinn veg og fara yfir það sem maður gerði vel á árinu og hvað hefði mátt fara betur.

Ef þú settir þér markmið fyrir 2025 þá er líka núna kjörið tækifæri til að fara yfir þau markmið, sjá hverjum þú náðir, hver þeirra væri sniðugt að uppfæra og hverju má bara fleygja í ruslið.
Fyrir nýtt ár er gott að hugleiða hvað maður vill fá út úr árinu, hvað maður vill uppskera. Hverjir eru draumar þínir og þrár?
Markmið eru holl og góð, enn betra ef maður skrifar þau niður og jafnvel á einhvern fallegan máta og hefur þau sýnileg yfir árið. Það sem við skrifum niður er líklegra til að rætast! Markmið mega ekki að vera of stór eða of langt í burtu, það þarf að vera hægt að ná þeim og því er gott að brjóta stór markmið niður í nokkur smærri. Taka fleiri skref og þá minni í átt að markmiðunum og þegar smærri markmiðunum er náð er gott að fagna aðeins, kaupa sér nýja sokka eða fá sér bragðgóðan melónubita - eða hvað sem gleður ykkur nú.
Markmiðasetning er leið sem margsannað hefur verið að virki. Stundum missum við sjónar á því hvað það er sem við erum að reyna að ná með þessu öllu saman og getur það átt við persónulega lífið, vinnuna, ræktina og allt hitt. Við missum sjónar á því hve langt við höfum náð og gleymum jafnvel að vera þakklátar fyrir hvað við höfum. Markmiðin hjálpa okkur líka með þetta en eitt besta og fallegasta markmiðið sem við getum gefið okkur sjálfum - og jafnvel það einfaldast í sinni hreinu mynd - er að vera þakklátar fyrir daginn í dag, þakklátar með það sem við eigum og að muna að þakka upphátt fyrir þetta allt saman. Það hjálpar okkur líka að halda huganum í lagi og léttir lundina.
Og þá að nýársheitum - við erum alfarið á móti þeim svo þið skulið bara fleygja þeim út um gluggann! Neinei, ekki alveg svo slæmt. Nýársheit er svolítið til þess búin til að strengja svo fast að „teygjan“ slitnar og allt fellur um sjálft sig kortéri eftir áramót. Klassískt er að strengja þess að heit að ætla að ná ræktarrútínunni í gang, borða hollar, sofa meira, hitta fleiri, gera meira, þrífa oftar - eða sem sagt gera bara meira af öllu. Og það er ekki hægt til lengri tíma.
Ef þú vilt endilega setja þér nýársheit skaltu hafa það afar hóflegt og opið, lofaðu sjálfri þér að huga betur að þér sjálfri - gefa þér stund á milli stríða og njóta lífsins. Strengdu það heit að vera hamingjusöm með sjálfri þér - hvað svo sem það þýðir fyrir þig. Svo hvernig þú ætlar að fara að því seturðu í lítil og náanleg, helst niðurskrifuð markmið.
Við í Kvennastyrk erum hér fyrir ykkur!
xoxo




Comments