top of page
Search

Hið eina rétta!

Samfélagsmiðlar eru af mörgu frábærir. Þeir stytta manni stundir og geta glatt með allskonar skemmtilegheitum.


Þeir geta líka étið upp tíma manns og látið mann trúa allskonar vitleysu.


Fólk héðan og þaðan í heiminum kemur fram á samfélagsmiðlum og segir manni að til að öðlast hinn fullkomna rass þurfi bara að gera „þessa“ æfingu átján sinnum á dag í þrjár vikur - Voila! Eða að ef þú borðar þrjú egg á dag komast línurnar í lag - Kapáw! Til að öðlast hið eina og sanna gap á milli læranna þarf bara að gera þessa einu æfingu eins oft og þú getur í tíu mínútur - Búmm! Til að vöðvarnir vaxi eins og trölli sæmir þarftu að borða sjö skeiðar af próteini hrært út í mysu - Tataaa!

Nei sko ... auðvitað vitum við allar betur.

En þetta á það til að sjattlast inn og búa sér til rými í heilabúinu. Við förum rólega að trúa því að þetta gæti verið satt. En sannleikurinn er hins vegar sá að það þarf blöndu af þessu öllu saman.


Til að léttast - eða þyngjast - þarf að byrja í eldhúsinu, það þarf að taka til í mataræðinu og borða góða blöndu af góðum og heilsusamlegum mat - 80-90% hollt og þú ert í frábærum málum. Þú nefnilega „mátt“ alltaf borða allt en þú „mátt ekki“ borða eins mikið og þú mögulega getur (við setjum þetta mátt og mátt ekki innan gæsalappa því þú auðvitað mátt gera það sem þú vilt!).


Vissulega er nauðsynlegt að borða ákveðið magn af próteini á dag en magnið fer algjörlega eftir þínum markmiðum og ef þú ert að blanda þér próteinsjeika þá fer magn próteinsins sem þú „þarft“ eftir því hve mikið af próteini þú færð úr máltíðunum þínum.


Í æfingum gildir að nýta tímann vel. Þú getur tekið tveggja tíma æfingu eða hálftíma æfingu, allt eftir því hvað hentar þér og þinni stundaskrá - og hvað þú fílar. Þyngri lóð og þungar lyftingar taka meiri tíma en æfing í meiri ákefð sem er þá léttari. Það er hollt að blanda þessu saman. Að taka stundum þungt og hægt - og stundum léttara og hraðar. Þannig æfum við þol vöðvanna og þrek þeirra sem best.


Láttu skynsemina stjórna þegar þú ákveður samsetningu þyngda og leyfðu dagsforminu að tala. Við keyrum okkur áfram í takt við hvað líkaminn er til í. Stundum er líkaminn til í að keyra sig vel áfram og stundum þurfum við að vera ögn mildari. Það er erfiðast að hlusta og hafa hemil á sjálfri sér - það getum við nefnilega ekki gert fyrir þig, þó við hjálpum stundum til við það.


Borðaðu það sem er hollt, leyfðu þér smá af öðru annað veifið. Passaðu að fá nóg af próteini og á æfingardögum er gott að fá sér steinefni því þau hjálpa líkamanum að jafna sig eftir æfingar. Mættu svo á æfingar nokkrum sinnum í viku.


Það er nefnilega hinn gullni meðalvegur sem gildir og heldur okkur gangandi.


xoxo


Föstudagshugleiðingin er vikulegt fréttabréf okkar með fréttum og pistli vikunnar.


👉 Starfsemi okkar er meira en bara líkamsrækt – við byggjum upp samfélag sterkra kvenna sem styðja hvor aðra 💕


 
 
 

Comments


bottom of page